top of page

 

Skert sjónskynjun (visual perception deficiency):

Sjónskynjun á sér stað í heilanum (úrvinnsla heilans úr þeim upplýsingum sem frá augum berast).

Til að skilja betur sjónupplifun einstaklings eru notuð ýmiskonar viðurkennd og stöðluð próf.

Sjónupplifun er samsett af ýmsumþáttum þáttum sem einstaklingar velta ekki fyrir sér dags daglega en snúast í raun um það hvernig við sjáum umhverfi okkar. 

Ýmsir þættir sjónupplifunar: 

- Sýn (visualization) - hæfileikinn til að skapa ímynd og vinna úr þeim sjónrænu upplýsingum vitræna hugsun. Þetta er mikilvægt við lesskilning og reiknisskilning. (Orð á blaði eða tölur á pappír hafa ekkert gildi nema heilinn vinni úr þeim upplýsingum og túlki og skilji það sem við sjáum). 

-Samþætting sjónar og hreyfingar (visual-motor integration):  Heilinn áætlar hreyfingar okkar út frá sjónskynjun. (t.d. þegar bolti er gripinn, eða stigið er yfir þröskuld).

-Sjónrænt raðminni (visual sequential memory) - hæfileikinn til að muna hluti eða stafi, eða orð í ákveðinni röð. Galli í raðminni getur valdið erfiðleikum við lestur - mislestur ( svo sem Sá verður Ás).

-Sjónræn mismunun (visual discrimination) - hæfileikinn til að greina á milli tveggja keimlíkra hluta, lögunar eða orða (svo sem hósta og hausta)

-Sjónályktun (visual closure) - þegar viðkomandi hefur hluta upplýsinga en getur ályktað hvað vanti upp á. Þetta er mikilvægt við hraðlestur og í stærðfræði. 

- Rýmisstaða (spatial relation) hæfileiki til að skynja stöðu tveggja eða fleiri hluta í rýminu . Stöðu þeirra hvor til annars og sjálfs síns. Þetta eru mikilvægir þættir í vandamálalausnum, í flóknari stærðfræði, og einfaldlega að hafa eðlilegt bil á milli orða þegar skrifað er. 

- Áttaskynjun/stefnuskynjun (Spatial orientation) nauðsynleg til að átta sig á stefnu hluta. T.d. hvort belgur stafanna d og b eða q og p snýr til vinstri eða hægri og átta sig á muninum á tölustöfunum 6 og 9. 

- Hægri- vinstri áttun (Laterality) -  hvað er til hægri og hvað til vinstri miðað við einstaklinginn sjálfan. Þetta er einn þáttur áttaskynjunar.

- Rýmisstefna (Directionality): Sá eiginleikinn að átta sig á staðsetningu hluta í rými og sá hæfileiki er annar þáttur í áttaskynjun.  Þannig að einstaklingur geri sér grein fyrir stefnu stafa og tölustafa  sem mynda orð og talnarunur frá vinstri til hægri - samkvæmt íslenskum ritmálshefðum.

Ofangreindir þættir eru stundum metnir ef einstaklingur á erfitt með að túlka það sem hann sér, missér og mistúlkar með hamlandi áhrifum á lestur, stærðfræðinám og námsframvindu almennt. 

Hægt er að meta þessa þætti með því að meta úrvinnslu sjónupplýsinga í heila. M.ö.o. hvernig heilinn vinnur úr þeim upplýsingum sem við öðlumst við að horfa á eitthvað, hvort sem það eru stafir og orð, tölur, hlutir eða hreyfingar í umhverfi okkar. (Visual information processing evaluation) 

Með þessu fæst mat á hæfileikum einstaklings til að nota augu, heila og líkama heildrænt.

2M0A2441.JPG
2M0A2459_edited.jpg
bottom of page