SJÓNÞJÁLFUN
Sjónþjálfi er sá sem sér um samræmda þjálfun augna og heila í þeim tilgangi að auðvelda eðlilega beitingu augna (auðvelda samsjón) og úrvinnslu sjónupplýsinga í heila. Auk þess getur sjónþjálfi í sumum tilfellum bætt sjónskerpu þegar þess gerist þörf.
Fólk á öllum aldri getur átt í erfiðleikum með að beita augum rétt, svo sem við akstur, sjónvarpsáhorf, skjávinnu og lestur. Hyggja þarf sérstaklega að börnum sem eiga erfitt með að læra að lesa, eiga erfitt með að einbeita sér, sjá tvöfalt eða kvarta um höfuðverk. Þau geta komið mjög vel út úr hefðbundinni sjónskoðun en ráða samt ekki við að beita augum rétt og það getur dulist leikum sem lærðum. Því þurfa þessi börn mjög góða skoðun af einstaklingum sem hafa menntun til þess og vita hvers skal leita. Við fáum margar ábendingar frá læknum, sérfræðingum, sjúkraþjálfurum og glöggum kennurum sem vilja láta athuga augu nemenda með námserfiðleika áður en aðrar ástæður eru skoðaðar. Einkenni eins og úthaldsleysi við lestur, einbeitingarerfiðleikar og almennir námserfiðleikar skapast stundum af augnvandamálum sem geta verið aðalorsök einkenna en fer stundum saman með öðrum ástæðum. Eitt útilokar ekki annað. Því er mikilvægt að leitað sé orsakana og truflun í starfsemi augna útilokuð áður en aðrar greiningar eru settar á einstaklinga með námserfiðleika.
Augnskoðun sjónþjálfa:
Fyrst og fremst snýst fyrsta skoðun sjónþjálfa um að meta hvernig augu og heili vinna saman og samspil þeirra við umhverfi. T.d. er ekki sjálfgefið að augu fylgi átakalaust línu þegar lesið er eða þegar horft er af bók eða tölvuskjá á borði uppá skjávarpa eða töflu í skólastofu. Algengt er að allt sé talið í stakasta lagi hjá einstaklingum með fullkomna sjón þ.e.a.s. sem sjá smæstu stafi á sjóntöflu. Það er ekki alltaf raunin. Truflun á hreyfingum augna (fylgihreyfingum), tvísýni, augnþreyta, ýmist skýr eða óskýr sjón og sundl getur átt sér staða vegna truflunar í samsjón þrátt fyrir góða sjónsskerpu.
Niðurstaða þessarar skoðunar gerir fært að meta hvort vandamálið sé leysanlegt með gleraugum eða linsum, prismagleraugum, sjónþjálfun og/eða skurðaðgerð á augnvöðvum.
Markmiðið er að einstaklingur sjái sem best og nýti sjón sína að fullu með sátta augnvöðva og heila og ráði við ýmsar breytur í umhverfi.
Skoðun getur tekið allt að 90 mínútur. Byrjað er á því að fara í gegnum heilsufarssögu og sjúkrasögu. Ýmislegt skiptir máli sem einstaklingar átta sig oft ekki á svo sem saga um áverka (á augu og höfuð), undirliggjandi sjúkdómar, erfiðleikar við fæðingu og lyf svo nokkur dæmi séu tekin.
Ýmis próf eru gerð til að meta samvinnu augna, samsjón, sjónskynjun, samhæfingu milli sjónar og heyrnar.
Lesblinda er í raun galli á úrvinnslu heila á sjónupplýsingum. Truflun í starfsemi augnvöða, innri og ytri hafa ekkert með lesblindu að gera og því bætir sjónþjálfun ekki lesblindu.
Fyrst er að greina vandamálið og þá sérlega hvort það geti verið augntengt eða eitthvað allt annað. Svo fer fram alhliða augnskoðun m.t.t. sjónar og samsjónar. Stundum dugar að fá góð gleraugu sem létta sjónstillingu en stundum nægir það ekki eða leysir ekki undirliggjandi vandamál. Sjónþjálfun er fyrir þá sem gleraugu duga ekki til eða er aðeins skammgóð lausn. Sjónþjálfun felst í því að einstaklingurinn geti notað þá vöðva sem þarf að nota til að lesa átakalaust þannig að jafnvægi sé á milli hinna ýmsu þátta samsjónar þ.e.a.s. ytri vöða augna, sjónstillingarvöðva og heila. Sjónþjálfun einstaklinga er ætíð einstaklingsmiðuð þar sem áherslur þurfa að vera mismunandi eftir því hvaða vöðva þarf að styrkja og hvaða vöða þarf að læra að nota rétt (sumir vöðvar eru ofvirkir og aðrir vanvirkir) og þetta þarf að allt að gera í sátt við heilann þar sem lokaúrvinnsla fer fram.